• Skjólstæðingur

Ljósbrá 21 árs

"Þegar ég var 17 ára og búin að flakka til og frá í liggur við öll úrræði sem ég gat mögulega farið í var ákveðið að ég færi á Laugaland.

Ég var alveg tjúlluð þegar ég fékk fréttirnar og ætlaði alls ekki að láta bjóða mér einhverja vitleysu þó ég væri að einhverju leyti meðvituð um það hvað ég væri á hættulegri braut. Málið var það að ég var í ofboðslega sjálfsskaðandi hegðun og mér var orðið nákvæmlega sama um líf mitt eða hvort ég ætti einhverja framtíð.

Fyrir mig tók ekki langan tíma að finna muninn á Laugalandi og öllu öðru sem ég hafði prófað. Laugaland varð öryggisnet og heimilið mitt og þar fékk ég að upplifa frelsi innan ákveðins ramma. Ég bjó á Laugalandi í 8 mánuði og hélt þar upp á 18 ára afmælið mitt daginn áður en ég útskrifaðist.

Þegar ég fór fyrst á Laugaland var ég brotin og týnd unglingsstelpa, reið við allt og alla og allt sem ég gerði var til þess að halda mér í þessum uppgerða veruleika og skekkju sem ég hafði búið mér til og það bætti ekki aðstæðurnar að ég var að nota fíkniefni til þess að skemmta mér, fela mig, deyfa mig.

Ég var hrædd við að flytja einhvert og þekkja ekki stelpurnar og viss um að ég yrði bara ein en ég kynntist stelpunum og það var bara allt í lagi að vera þarna. Það var alveg erfitt að búa með hóp af öðrum stelpum og þurfa að gera eitthvað og leggja sitt fram, það skapaðist spenna og af og til ósætti en frábæra starfsfólkið sem er hjarta Laugalands var snöggt að grípa til sinna ráða.

Mér fannst aldrei eins og það væri verið af refsa mér eða skamma mig ef ég missti mig heldur var hrósað fyrir það sem ég gerði rétt og talað um það sem fór úrskeiðis og unnið úr því. Ég hætti að vera alveg föst í skelinni minni á endanum, ég hafði ekki tíma til þess lengur vegna þess að ég var of upptekin að gera eitthvað annað og skemmtilegra.

Við vorum í ART (aggression replacement training) sem hjálpaði mér að m.a. geta lesið, leyst úr aðstæðum, skilið aðstæður og samskipti betur og ég kláraði 2 umferðir í því og á enn í dag viðurkenningarnar fyrir það.

Ég fékk tækifæri til að vera í skóla og ég kláraði meira að segja frá byrjun allt ökunám og bílprófið sjálft. Ég fékk líka rosalegt tækifæri til að axla ábyrgð þegar ég fékk að fara að vinna hjá Stjörnusól og yndislega fólkinu þar sem treysti mér og trúði á mig og meira að segja mætti í útskriftina mína og ég er svo þakklát þeim fyrir þessa reynslu og að ég lærði þar hvað virðing á vinnustað er mikilvæg.

Um helgar fengum við vasapening og fórum inn á Akureyri að kaupa okkur nammi eða eitthvað sem okkur langaði í og á sunnudögum tókum við til í herbergjunum okkar og þær sem vildu og höfðu leyfi til fengu að fara í ljós og hinar fengu að gera eitthvað annað í staðinn ef við stóðum okkur vel og vorum duglegar.

Við fengum að hafa símann okkar í ákveðina tímalengd sem fygldi þrepakerfinu og við fórum í ræktina reglulega. Mikill plús fyrir mig sem reykingarmanneskju á þeim tíma var að við höfðum sígaretturnar okkar sjálfar og stjórnuðum því hvenær við vildum fara út að reykja og allar útihurðir voru opnar þannig okkur var treyst frá degi 1 að geta farið út að reykja eða eitthvað hvenær sem við vildum.

Öll þessi hvatning, umbun og frelsi hjálpaði mér svakalega að vera ekki í mótþróa við meðferðina og ég virti reglurnar varðandi þetta vegna þess að mig langaði alls ekki að missa það góða sem fylgdi því að fara eftir reglunum.

Seinustu mánuðina fyrir útskrift var hópurinn alveg nýr og ég hafði þekkt allar stelpurnar persónulega á árunum áður, mig grunar að sumt fólk hafi áhyggjur af því að þær aðstæður skapi bakslag eða pressu en það var alls ekki þannig fyrir mig heldur hjálpaði það bara meira ef eitthvað er. Við til dæmis fengum tækifæri til að taka þátt í söngvakeppninni Tónkvísl sem var sýnd í sjónvarpi og með áhorfendur í sal og það var mjög styrkjandi fannst mér að takast á við kvíðann og pressuna sem fylgdi því og klára það frábærlega. (Við unnum símakosninguna).

Pétur fór fram úr öllum væntingum og við fengum skó og kjóla frá honum til að nota í keppninni og ég á ennþá bæði.

Ég gæti aldrei nefnt einhverja eina minningu þaðan sem er “best” afþví ég á svo margar frábærar minningar þaðan að ég bara get ekki gert upp á milli.

Laugaland kenndi mér umfram allt að njóta lífsins og bera virðingu fyrir sjálfri mér og ég get sagt að líkurnar á því að ég væri lifandi í dag væru ekki góðar ef ég hefði ekki fengið þetta tækifæri.

Laugaland í mínum huga er alltaf “heima” og mun ábyggilega alltaf vera.

Laugaland er ekki bara meðferðarheimili eða tækifæri fyrir stelpur með geðvandamál eða í fíknivanda heldur er það nauðsyn, heimili og fjölskylda sem býr svo í hjartanu á okkur og ber merki sitt á okkur til æviloka og það er ómetanlegt.

Allt í allt, það góða og slæma, þá hreinlega langar mig að ferðast aftur í tímann og fá að upplifa þetta allt aftur afþví ég sakna þess að vera þarna og ég óska þess að ég hefði fengið að fara mikið fyrr þangað.

Laugaland var fjölskyldan mín í 8 mánuði og ég kynntist fólki á þeim tíma sem ég á að þakka allt sem mér tókst að læra og gera og ég gæti ekki verið þakklátari fyrir allt sem mér var gefið og kennt, mér sárnar svo rosalega að það eigi að loka þessu heimili afþví þetta er það eina sem hjálpaði mér að snúa lífinu mínu alveg við og ég veit það fyrir víst að ég er ekki eina stelpan komandi þaðan sem finnst það."

312 views

Related Posts

See All

Hrefna, 25 ára

Ég kom á Laugaland 17 ára. Ég er virkilega þakklát fyrir tímann þar. Starfsfólkið er frábært og það var annaðhvort að gera eitthvað fyrir okkur, með okkur eða grínast í okkur. Þarna er heilbrigð rútín

Auður 26 ára

"Ég kom inn á Laugaland 16 ára vegna andlega veikinda. Það vissi enginn nákvæmlega hvert hægt væri að setja mig en sem betur fer var geðlæknirinn minn og foreldrar mínir sammála um að berjast fyrir þv

Esther 26 ára

"Ég var 17 ára þegar ég fór á Laugaland. Þetta er eina meðferðarheimilið sem ég hef farið á sem hefur í alvörunni hjálpað mér. Laugaland er sá staður sem bjargaði bæði lífi mínu og geðheilsu. Ég gekk

 

Frásagnir einstaklinga hvernig meðferðarheimilið á Laugalandi bjargaði þeim